Suðurhlíð er ný miðstöð fyrir þolendur ofbeldis

Suðurhlíð er ný miðstöð fyrir þolendur ofbeldis

Staðsett í Heilsugæslunni Höfða

Þolendur eiga oft erfitt með að leita sér aðstoðar. „Ég hef lengi brunnið fyrir þennan málaflokk, ég vil aðstoða þolendur ofbeldis,“ segir Inga Dóra Jónsdóttir, teymisstýra í Suðurhlíð, sem er nýtt úrræði fyrir þolendur ofbeldis. Miðstöðin er staðsett þar sem Heilsugæslan Höfða er á Aðalgötu 60. 

Guðrún Hafsteinsdóttir, Inga Dóra, Sigþrúður Guðmundsdóttir, verkefnastjóri hjá Lögreglustjóranum í Reykjavík og Rut Sigurðardóttir, rannsóknarlögreglukona og formaður stjórnar Suðurhlíðar.
Ljósmynd: Víkurfréttir - Guðrún Hafsteinsdóttir, Inga Dóra, Sigþrúður Guðmundsdóttir, verkefnastjóri hjá Lögreglustjóranum í Reykjavík og Rut Sigurðardóttir, rannsóknarlögreglukona og formaður stjórnar Suðurhlíðar.

Markmið Suðurhlíðar er að veita stuðning, ráðgjöf og fræðslu um eðli og afleiðingar ofbeldis og gefa þau skýru skilaboð að ofbeldi verði ekki liðið. Lögð er áhersla á samþættingu þjónustu með það að markmiði að notendur gangi að sem flestum þjónustuþáttum á einum stað og þurfi ekki að fara á milli ólíkra stofnanna og kerfa til að fá nauðsynlegan stuðning og ráðgjöf.

Einstaklingsviðtöl og ráðgjöf eru í boði svo og tenging við aðra þjónustu sem er til staðar, þ.m.t. velferðarþjónustu sveitarfélaganna, heilsugæslu og lögreglu. 

Suðurhlíð er fjórða miðstöðin á landinu, áður var búið að opna Bjarkarhlíð í Reykjavík (2017), Bjarmahlíð á Akureyri (2019) og Sigurhæðir á Selfossi (2021). 
Suðurhlíð er óhagnaðardrifin og er rekin af styrkjum. 

Inga Dóra hefur lengi haft brennandi áhuga á að aðstoða þolendur ofbeldis en hún vann um tíma sem félagsráðgjafi hjá Reykjanesbæ, var búin að vera í svipaðri stöðu hjá Hafnafjarðarbæ þegar hún sá stöðu teymisstýru Suðurhlíðar auglýsta.

„Ég er frá Arnarfirði á Vestfjörðum en hef búið undanfarin ár í Reykjanesbæ og líður vel þar. Ég átti sjö góð ár í vinnu sem félagsráðgjafi hjá Reykjanesbæ en langaði til að breyta til og var búin að vera í níu mánuði hjá félagsmálaþjónustu Hafnarfjarðarbæjar þegar ég sá þessa stöðu hjá Suðurhlíð auglýsta. Ég hef alltaf brunnið fyrir þennan málaflokk, hann hefur lengi verið mitt hjartans mál og ég fann strax að ég vildi fá þessa stöðu og sótti því um, sem betur fer fékk ég starfið. Segja má að þetta verkefni hafi byrjað í fyrra. Ég tók þátt í undirbúningi á meðan ég vann hjá Reykjanesbæ, það var kominn tími til að opna miðstöð hér og ég er afskaplega ánægð að fá að stýra henni. Allar þessar miðstöðvar sem hafa opnað eru reknar samkvæmt sömu hugmyndafræði, miðast við átján ára aldur og eldri en þó er Sigurhæðir aðeins ólík því sú miðstöð er bara fyrir konur. Þessar miðstöðvar snúast um að þolendur ofbeldis geti sótt alla þjónustu á sama stað, í stað þess að þurfa velkjast um á milli margra kerfa. Ég á greiðari aðgang að ýmsum úrræðum og get þess vegna komið þeim aðilum sem leita til Suðurhlíðar fyrr á réttan stað. Ég hóf störf 1. september og byrjaði á að kaupa húsgögn og gera aðstöðuna okkar klára. Við fengum inni á Heilsugæslunni Höfða, ég lagði mikið upp úr að hafa þægilegt andrúmsloft og góðan anda.“

Inga Dóra bauð gestum inn í aðstöðu Suðurhlíðar, andinn þar er mjög góður.
Ljósmynd: Víkurfréttir - Inga Dóra bauð gestum inn í aðstöðu Suðurhlíðar, andinn þar er mjög góður.

Fyrsta skrefið alltaf það erfiðasta

Þolendur ofbeldis eiga venjulega mjög erfitt með að stíga fyrsta skrefið í áttina að því leita sér aðstoðar.

„Ég vona að þolendur ofbeldis lesi þessa grein og viti að mínar dyr í Suðurhlíð standa viðkomandi opnar. Hjá þolendum ofbeldis er oftast erfitt að stíga fyrsta skrefið til að leita sér aðstoðar. Ég held mér sé óhætt að segja að algengasta ofbeldið sé heimilisofbeldi og þá oftar en ekki að konan sé beitt ofbeldi af hendi mannsins en það er langt í frá algilt, karlmenn leita líka til mín. Það ofbeldi sem karlmenn hafa lifað við er venjulega andlegt ofbeldi sem er ekki minna alvarlegt en líkamlegt. Kynferðisofbeldi er líka algengt en til eru margar hliðar ofbeldis og mikilvægt að allir viti að dyr mínar standa þeim opnar. Það er þægilegt að panta tíma, persónuleyndar er að sjálfsögðu gætt og ég hvet alla sem telja sig vera í ofbeldissambandi að hafa samband. Það hefur verið nóg að gera hjá mér, ég er eini starfsmaðurinn svo ég þarf að ganga í öll verk má segja, aðalatriðið er auðvitað að hitta þjónustuþega og veita þeim ráðgjöf. Svo þarf að huga vel að skráningu gagna en mjög vel er haldið utan um öll gögn og aftur, fullrar persónuleyndar er gætt. Ég hef verið að taka tvö viðtöl á dag en hvert viðtal tekur ekki lengri tíma en 45 mínútur. Eins og er get ég ekki boðið upp á fleiri viðtöl, ég þarf líka að hlúa að mér í þessu starfi. Eins og komið hefur fram geta þolendur ofbeldis átt sér mjög flókna sögu og ég þarf að vera vel undirbúin og tilbúin svo ég geti veitt aðstoð. Ég vil geta verið til staðar sem fagaðili og ég veit að til þess þarf ég að hlúa vel að sjálfri mér, sem ég passa upp á. Þetta er ekki ólíkt því sem við sjáum í öryggisleiðbeiningum í flugvélum. Foreldrið á fyrst að setja grímuna á sig, síðan barnið sitt, það gildir í raun hjá mér líka. Þetta hefur alls ekki verið of mikið á þessum fyrstu vikum og ég hlakka til að byggja starfið hér upp. Það verður gott þegar ég get bætt við starfsfólki því mig dreymir um að geta verið með eftirfylgni líka, venjan er að þjónustuþegi komi að hámarki þrisvar sinnum og það séu u.þ.b. þrjár vikur á milli viðtala en svo væri gott að geta boðið upp á hópatíma í framhaldinu. Rannsóknir hafa sýnt að þolendur hjálpa hver öðrum, þeir fá stuðning frá hverjum öðrum og svona hópatímar hafa fyrir löngu sannað gildi sitt,“ segir Inga Dóra.

Heimilisofbeldi flóknustu dæmin

Mismunandi ofbeldi kallar á mismunandi úrræði. Þolendum kynferðisofbeldis er nánast undantekningarlaust vísað til Stígamóta en Inga Dóra hefur greiðan aðgang að þjónustu þar og þess vegna geta þjónustuþegar í Suðurhlíð fengið þjónustu fyrr en ella. Heimilisofbeldi getur oft verið mjög flókið.

„Heimilisofbeldi er eðli málsins samkvæmt flólkið því þarna á fjölskylda í hlut, börn oft á tíðum í spilinu og sá sem beittur er ofbeldinu, sem oftast er konan, þarf kannski að snúa til baka inn á heimilið þar sem ofbeldið átti sér stað. Í alvarlegri málum er oft nauðsynlegt að konunni sé vísað í Kvennaathvarfið og ef börn eru á heimilinu mega þau líka koma. Það getur verið erfitt fyrir þolendur að að mæta á lögreglustöðina ef þeir vilja kæra ofbeldið en ég get haft samband við lögreglu og óskað eftir að hún mæti í Suðurhlíð og þolandi getur lagt fram kæru þar.

Varðandi heimilisofbeldi þá er því miður sjaldgæft að þolandi geti snúið aftur til síns heima og allt fellur í ljúfa löð. Auðvitað fer það eftir í hve langan tíma ofbeldið hefur verið í gangi en venjulega er eina leið fórnarlambsins út úr ofbeldinu að losa sig úr sambandinu. Mörgum kemur á óvart að ofbeldi þrífst á öðrum stöðum en bara inni á hefðbundnum heimilum, við sjáum ofbeldi hjá fötluðum, hjá eldri borgurum o.s.frv. Ofbeldið leynist víða.
Ég er mjög bjartsýn á rekstur þessarar miðstöðvar, móttökurnar í samfélaginu hafa verið frábærar. Við stofnun Suðurhlíðar fengum við styrk frá félags- og vinnumálaráðuneytinu, félagi Soroptimista í Reykjanesbæ og einnig fengum við styrk frá Góðgerðarfesti Blue Car Rental ehf. en starfsemi okkar er alfarið rekin á styrkjum. Ég þarf að beita mér í þeim efnum líka svo ég sé fram á annasama tíma á næstunni en hlakka bara til þess. Sveitarfélögin og samstarfsaðilar hjálpa okkur á annan máta en með beinum fjárstuðningi, t.d. ef það þarf tímabundið annan félagsráðgjafa eða aðra aðstoð. Ég veit að það er þörf fyrir svona þjónustu því Suðurnesin eru ört stækkandi með miklum breytileika fólks. Ef að fólk er ekki að nýta sér þjónustuna gæti það verið vísbending um að fólk átti sig ekki á að þjónustan sé til staðar eða að þolendur séu að leita sér aðstoðar fyrir utan svæðið. Eins og starfsemin hefur farið af stað sé ég þörfina fyrir miðstöð eins og Suðurhlíð hér á Suðurnesjum.

Ég hlakka til að vera til staðar fyrir þá sem leita í þjónustu Suðurhlíðar og tel vel á móti öllum,“ sagði Inga Dóra að lokum.

Scroll to Top