Bjarkarhlíð, fyrsta þverfaglega miðstöðin fyrir þolendur ofbeldis á Íslandi tók til starfa í febrúar 2017 en síðan hafa þrjár miðstöðvar bæst í hópinn, Bjarmahlíð á Akureyri, Sigurhæðir á Suðurlandi og nú síðast Suðurhlíð á Suðurnesjum.
Allar vinna þær á einn eða annan hátt út frá hugmyndafræði „Family Justice Center“ sem byrjaði að þróast í Bandaríkjunum í lok síðustu aldar. Megininntakið í hugmyndafræðinni er að veita fullorðnum þolendum ofbeldis þverfaglega þjónustu á einum stað, þeim að kostnaðarlausu og þeirra forsendum.
Í nóvember 2023 undirrituðu ellefu aðilar á Suðurnesjum samstarfsyfirlýsingu um svæðisbundið samráð um aðgerðir gegn ofbeldi og öðrum afbrotum á svæðinu. Þau sem eiga aðild að yfirlýsingunni eru sveitarfélögin fjögur á Suðurnesjum, FS, HSS, Heilsugæslan Höfða, Keilir, Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, Keilir, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, og Sýslumaðurinn á Suðurnesjum. Í aðdraganda undirritunarinnar varð ljóst að fyrsta verkefni samráðsvettvangsins væri að opna miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Suðurnesjum. Hafði þá þegar fengist styrkur til starfseminnar frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Í ársbyrjun 2024 var skipaður undirbúningshópur sem í sátu fulltrúar þeirra aðila sem stefndu að opnun miðstöðvarinnar; sveitarfélaganna, lögreglunnar, HSS, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar en síðastnefndu aðilarnir tóku vel í beiðni um að slást í hópinn. Fundina sat einnig sýslumaðurinn á Suðurnesjum sem jafnframt hýsti fundina.
Frá stofnfundi Suðurhlíðar að Aðalgötu 60 í Reykjanesbæ. Ljósmynd: Víkurfréttir
Ákveðið var að kalla nýja miðstöð Suðurhlíð og góðfúslegt leyfi fékkst frá stjórn Bjarkarhlíðar um að Suðurhlíð fengi að samnýta lógó Bjarkarhlíðar en í sínum eigin litum. Í umræðu um húsnæðismál kviknaði sú hugmynd að kanna hvort miðstöðin fengi inni í húsinu að Aðalgötu 60 Reykjanesbæ og var þeirri hugmynd vel tekið af rekstraraðilum og því fljótt ljóst að Suðurhlíð myndi deila húsnæði með Heilsugæslunni Höfða og annarri heilsutengdri starfsemi sem þar er til húsa.
Í nóvember 2023 hélt Soroptimistaklúbbur Keflavíkur fjáröflunarkvöld til styrktar Suðurhlíð, enn ein vísbendingin um hlýjar móttökur Suðurhlíðar meðal íbúa á svæðinu.
Vorið 2024 var auglýst eftir teymisstjóra til að halda utan um starf Suðurhlíðar, margar góðar umsóknir bárust og var gengið frá ráðningu Ingu Dóru Jónsdóttur, félagsráðgjafa með mikla reynslu af þjónustu við þolendur ofbeldis.