Flest förum við inn í sambönd með það fyrir augum að eiga í heilbrigðum og ástríkum samböndum byggðum á jafnréttisgrundvelli. Við höfum ákveðna framtíðarsýn með tilliti til sambandsins og þess sem það kemur til með að færa okkur. Þegar við gerum okkur grein fyrir því að þessi sýn verður ekki að veruleika er eðlilegt að tilfinningar sorgar og hryggðar banki upp á.
Að búa við ofbeldi hefur áhrif á alla þætti lífs þeirra sem fyrir því verða. Þegar ítrekað andlegt niðurbrot hefur átt sér stað verður sjálfsmyndin bjöguð og lituð af niðurrifi gerandans. Félagsleg einangrun er algeng og þarf sá sem fyrir ofbeldinu verður oft að horfa á eftir innilegum tengslum við vini og fjölskyldu vegna pressu frá þeim sem ofbeldinu beitir. Algengt er að þolendur upplifi skerta trú á eigin getu, missi tengsl við innsæi sitt, tilfinningar og gildi. Þá er algengt að gerandi beiti gaslýsingu, alvarlegri birtingarmynd andlegs ofbeldis, til þess að afvegaleiða einstakling og búa til atburðarás sem hentar aðeins málstað þess sem ofbeldinu beitir. Ef ósannindi eru matreidd ofan í einstakling ítrekað er ekki óeðlilegt að hann fari að efast um eigin sannfæringu, upplifanir og minningar og einmitt þess vegna er gaslýsing jafn alvarleg og raun ber vitni.
Sorg er sammannleg tilfinning sem tekur á sig fjölmargar myndir. Hún er eðlilegt viðbragð við missi sem þegar hefur orðið eða missi sem vofir yfir. Í raun er sorg hlykkjóttur vegur sem felur í sér fjölda tilfinninga. Þolendur ofbeldis fara ekki varhluta af því að upplifa missi af ýmsum toga. Ekki aðeins er þolandi að horfa á eftir maka sínum og þeirri fjölskylduímynd sem hann gerði sér í hugarlund heldur ekki síður horfir hann á eftir hluta að sjálfum sér sem hann óttast að ná ekki að endurheimta. Andleg og líkamleg heilsa hefur orðið ofbeldinu að bráð. Friðurinn innra með einstaklingnum hefur fjarað út og með honum fór sjálfsmyndin. Þolendur fara í gegnum persónubundið sorgarferli og sveiflast á milli ólíkra tilfinninga sem koma og fara. Algengt er að einstaklingar sveiflist á milli skilnings og vantrúar, afneitunar og samþykkis. Tilfinningar á borð við ótta, höfnun, hjálparleysi og reiði eru algengar tilfinningar en sömuleiðis mikilvægur partur af ferlinu.
Einstaklingur sem missir ástvin af völdum sjúkdóma eða slysfara er gefið rými til þess að syrgja. Umhverfið stendur með viðkomandi og honum er sýndur verðskuldaður stuðningur. Því miður er það ekki alltaf upplifun einstaklings sem yfirgefur ofbeldissamband. Algengt er að hann fái skilaboð þess efnis að nú eigi hann að gleðjast yfir því að hafa komið sér úr sambandinu og ekki sé þörf fyrir að syrgja heldur halda ótrauður áfram. Þá er ekki síður algengt að þolandi sjálfur upplifi að hann eigi ekki rétt á sinni sorg. Tilfinningar hans hafa almennt ekki verið viðurkenndar fram til þessa og hví ætti þolandi nú að fara að gefa tilfinningum sínum vægi? Við þessar aðstæður fer hann á mis við nauðsynlegan stuðning og samkennd frá sjálfum sér og öðrum. Það sem flækir málin síðan verulega er sú staðreynd að sá sem veldur þjáningunni og litrófi erfiðra tilfinninga er sá hinn sami og hefur staðið þolandanum næstur.
Nú þegar hátíð gengur í garð er eðlilegt að upplifa sorg og hryggð. Syrgja hátíðisdaga sem litast hafa af gjörðum gerandans. Rifja upp gleðistundir sem ekki urðu og jól þar sem erfitt var að mæta vonum og væntingum barnanna sökum ofbeldis og ómannlegs álags. Þá er ekki síður mikilvægt að sýna sjálfum sér samkennd, mæta sér af einlægni og afneita ekki þeim tilfinningum sem upp koma og þeirri þýðingu sem þær hafa. Ofbeldi er samfélagsmein sem hvergi á að þrífast og til þess að stemma stigu við því verðum við að taka höndum saman og berjast gegn því. Við verðum að berjast gegn þöggununni og viðurkenna reynslu og tilfinningar þolenda, þar er sorgin stór og viðamikill þáttur. Ferli sem tekur tíma en leiðir vonandi af sér sátt.
Allir hafa rétt á sinni sorg. Hún er mikilvægur partur af bata hvers manns og aðlögun að nýju lífi. Engin leið er úr sorginni nema í gegnum hana.
Upprunaleg grein frá Bjarkarhlid.is
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu í tilefni 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi.